14.9.2009 | 23:53
Mandag
Nú finnur maður að veturinn er að detta inn enda farinn að mynna á sig á hverjum degi. Nú eru fjöllin orðin hvít niður fyrir miðjar hlíðar og svona snjómugga á hverjum degi hér við kampinn. Ennþá hefur samt ekki fest snjó hér niður við sjávarmálið en það styttist í það. Hitastigið hangir í svona 3-4 °c yfir daginn og niður fyrir frostmark á nóttinni. Helgin gekk eðlilega fyrir sig, allir kátir og hressir. Verkið heldur áfram á fullu og margir hlutar þess að klárast eða eru alveg búnir. Nú er t.d. komnir hingað Norskir sprengjusérfræðingar til að sprengja síðasta haftið útí vatnið. En það er einhverjum 20 m fyrir neðan yfirborð vatnsins stóra. Það verður væntanlega gert á sunnudaginn næsta.
Eitt sem er einkennandi fyrir sunndaga hér í kampnum er að þá mjög mikið álag á internetið, og ég veit ekki hvort það er vegna aldurs þessarar tölvu sem ég er með eða hvað, en ég kemst bara ekki að á sunndögum, fæ bara ekkert net.Þá eru flestir í fríi og nota tímann til að skoða heiminn eða tala í Skype eða hvað annað.
Allir í stuði, hlakka mikið til að koma heim 1.okt og sjá alla
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.9.2009 | 09:04
Þessi fíni föstudagur
Oft hefnist manni fyrir það að vera latur og það gerðist í dag. En í gær var hífandi sunnan sandrok og varla hundi út sigandi, hvað þá kokki. Þannig að ég ákvað að fresta því til morguns að fara út með ruslið. Staflaði því fallega á lagerinn og lokaði hurðinni á rokið og hljóp undan vindi inn í kampinn minn og undir sæng. En svo þegar ég vaknaði í morgun var kominn þessi líka rigningin og það rigndi og rigndi í allan dag og rignir enn. Þannig að í stað þess að vera sandbarinn við ruslaútburð, þá varð ég hundblautur frá toppi til táar. Nú var kominn tveggja daga ruslahaugur fyrir utan dyrnar hjá mér, en ég henti öllu út í morgun fullur bjartsýni. Nú dugði ekki að grípa næsta sexhjól enda pallurinn takmarkaður, þannig að ég greip næsta pallbíl og bakkaði honum með stæl að hurðinni og þrumaði 100 pokum ( að mér fannst) uppá pallinn og keyrði eina 100 metra og gusaði þeim í inn í gáminn. Já já ekki langt að fara, ég veit það en það er bara svo hundleiðinlegt að burðast hverja ferðina á fætur annarri með poka í báðum höndum og það í grenjandi rigningu, þannig að ég gríp bara næsta faratæki, ekki það að ég hafi ekki gott af göngunni, en ég þykist taka það út allan daginn í staðinn með því að trampast þetta fram og til baka í eldhúsinu. Þannig að í stað þess að verða sandblásinn varð ég rennblautur. Annars var þetta fínn dagur, rigningin löngu tímabær og flestir fagna henni held ég, enda rigningin góð. Ragga mín, ástarblómið komin heim þannig að þetta er allt að verða eðlilegt aftur. Rosalega hlakkar mig til að sjá þau öllsömul í október þegar ég kem heim.
Merkilegur dagur í dag 11.sept, eða 9/11. Ég man alveg hvar ég var þegar árásin á turnana var gerð. Þá vorum við bræður með reksturinn í sjómannskólanum, vorum kallaðir á fund hjá skólameistara kennaraháskólans og náðum að lenda einhverju samkomulagi við hann. Svo þegar við komum aftur í sjómannskólann var allt uppí loft hjá þeim heyrnalausu sem voru þarna í húsinu líka, þau bentu okkur á að koma og horfa hjá þeim á sjónvarpið en þá var bein útsending. Og þau horfðu og töluðu með höndunum og það var alveg svakalegt að sjá þau tala saman í svona miklum tilfinninga áfalli eins og allir upplifðu þennan dag. Allar hendur uppí loft, menn og konur börðu sér á brjóst og sveiflu höndum í allar áttir... Margskonar upplifanir sem ég átti með honum bróðir mínum sáluga, Árna Stefáni Árnasyni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.9.2009 | 00:01
Geimveruárás
Jæja það hlaut að koma að því að það gustaði hér aðeins, en hér er búinn að vera sunnan og suðvestan stormur í allan dag, eða frá hádegi....og er enn kl 22.45. Því miður rigndi ekkert með þessu og þannig að hér er búinn að vera sandstormur eins og hann gerist bestur. Enda er það þannig núna að það er sandur allstaðar. Inní herbergjunum, matsalnum, uppí manni, bakvið eyrun og inn í augum. Um það leyti sem vindurinn gaus upp var hér mikið sjónarspil á himni, en þá fóru skýin alveg á fullt, bjuggu til ýmsar fígúrur og landslag sem ég hef aldrei upplifað áður. Þetta var bara eins og í amerískri stórslysamynd, þar sem himinn og jörð gjörsamlega náðu saman, það var bara eins og það ætlaði að opnast gat og við öll sogast ofaní gatið eða milljónir geimvera að ráðast á okkur og hernema 2.fjörð... Annan eins djöflagang hef ég aldrei séð á himninum, oft hef ég tekið mikið af myndum af himninum heima á Höfn þegar stíf norðanátt er og sólinn er að hrapa í jökulinn og allt verður rautt, svo bleikt, svo gult,,eða þegar skýin demba sér niður eftir Klifatindi, niður Almannaskarð og reyna að ná þeim sem keyra þar um, en þetta var eitthvað allt annað. Þetta var svona hálf drungalegt, maður vissi ekki alveg hvað kæmi næst.....eða hver.
Tók fullt af myndum og setti á fésbókarsíðuna og reyni að setja eitthvað hér inn líka.
Annars gekk dagurinn ósköp venjulega fyrir sig, við Guðmundur óskuðum hvor öðrum til lukku með brúðhjónin ungu, Svövu og Friðrik, ég þá sem fulltrúi stórfjölskyldunnar á Grænlandi og hann sem tengdapabbinn. Bakaði alveg helling en það var mest allt étið, þannig að það verður bara að halda því áfram á morgun
Á morgun er kominn nýr dagur með nýjum ævintýrum, ég fer spenntur í rúmið og reyni að kyngja síðustu sandkornunum, ætla að skipta um á rúminu, enda hálffullt af sandi og rifja þannig upp gamla takta af hótelinu. Reyndar gerði ég það um daginn, reif af einum 20 herbergjum og var snöggur að því enda vanur maður og fer létt með svona smotterý enda alinn upp í þvottahúsi þeirra Sverrisstaðarsystra.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.9.2009 | 00:04
Gaman gaman
Þegar hún Ragga mín er að tala við hana Sirrý vinkonu sína á Rás 2 á sunnudagsmorgnum þá segir hún stundum, og það er nú gaman að segja frá því" og ég ætla bara að gera hennar orða að mínum og segja.
Og það er nú gaman að segja frá því að hingað í 2.fjord kom í dag einn ráðherra úr Grænlensku heimastjórninni, umhverfis og vegamálaráðherrann. Var hann að kynna sér verkið og vonandi fer hann með góða sögu af okkur inn á fund hjá heimastjórninni þegar þeir ákveða hver skal virkja fyrir þá í Ilullisat. En það er hér norðar á Grænlandi og hefst næsta vor. Útboðið í það verk var opnað núna á mánudag og var Ístak nr. 2 Einhverjir Danir buðu lægra, en þeir hafa ekki jafn mikla reynslu í svona virkjanagerð líkt og Ístak hefur. Nú á heimastjórnin eftir að fara yfir tilboðinn, þeir kalla það fegurðarsamkeppni, þar sem reynsla fyrirtækjanna, teikningar og annað slíkt er borið saman og síðan endanleg ákvörðun tekinn.
Það var svo sem ekkert verið að snobba neitt fyrir blessuðum ráðherranum, hann kom kl 13.00 og fékk bara sama mat eins og aðrir á staðnum, kjötbollur, kartöflur og sósu, og borðuðu þau bara vel og fengu nýbakaða hjónabandssælu á eftir. Allir kátir með það. Svo fór hann og hans föruneyti í skoðunarferð um svæðið, allir saddir og sælir.
Ef menn vilja kynna sér eitthvað þetta verk hér í 2.firði þá er Guðmundur Þórðarson, sem er staðarstjóri hér og tengdapabbi Svövu Dagnýjar, nýbúinn að senda inn á heimasíðuna hjá Ístak www.istak.is fína grein um verkið og myndir af svæðinu.
Fékk fullt af vörum í dag frá Nuuk og voru þær aðeins 2 vikur á leiðinni og er það nú bara nokkuð gott þannig að nú er loksins farinn að læra aðeins á þetta hér en þetta pantaði ég bara beint á netinu hjá þessu fyrirtæki í Nuuk. Alltaf að læra eitthvað nýtt
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.9.2009 | 00:18
Fullt tungl
Hér í 2.firði gengur lífið allt sinn vana gang, helgin fór bara vel fram þrátt fyrir fullt tungl og næturfrost. Þar sem flestir eiga frí á sunnudögum fá menn sér oft svona í aðra tánna á laugardagskvöldum og er það bara nauðsynlegt svona til að hressa aðeins uppá menn. Þetta fer alltaf vel fram enda allir þreyttir eftir vinnuvikuna. Svo mæta menn hressir og kátir í beikon til kokksins á sunndagsmorgnum og njóta svo frídagsins með ýmsum hætti. Sumir labba hér um villta náttúruna, aðrir renna fyrir fiski nú eða hvað það sem þetta svæði bíður uppá. Það er búið að vera næturfrost hér undanfarnar nætur og einhvern veginn finnst manni vera stutt í snjókomu þó svo að það sé aðeins í fjöllum ennþá.
Það byrjaði hjá mér ný stelpa núna á fimmtudaginn, hress og skemmtileg, enda kom svo í ljós að hún er greind með ADHD eins og hann Ísar minn, ja pabbi hans jafnvel líka þó svo að hann hafi ekki greininguna á blaði. !! Gaman af þessu , líf og fjör allan daginn, enda verða menn að vera hressir og kátir svona í útlegð. Nú er Ragga farin í útlegð í viku, og mamma og Rafn redda þessu á meðan. Síðan kem ég heim 1. Október og hef hug á því að taka eina helgi í R-vík, búinn að leigja íbúð, og taka hús á Gísla bróður sem ætlar að verða fullorðinn núna í október. Hann neyðist sem sagt að halda party því það fyllist hjá honum húsið að ættingjum og eitthvað verða menn nú að eta og drekka á svona stundum.... hahahaha. Fínt að hitta líka Aðalheiði kjarnakonu tengdamóðir mína. Það væri réttast að taka hana með í næsta ævintýri þegar það verður komið í ljós hvar það er í heiminum...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
3.9.2009 | 01:52
líf og fjör-líf og fjör
Ég var að hugsa um það áðan þegar ég var að skera purusteikina að ég hef líklega aldrei á minni ca 20 ára starfsævi í eldhúsum, eldað svínakjöt í jafn miklu mæli og ég geri núna hér, og jafnframt aldrei eldað jafn lítið af lambakjöti. En það er fínt, maður þarf að vera frjór í nýsköpun á réttum úr svínakjöti. Annars ætla ég ekkert að fara gefa upp nein leyndarmál hjá mér, þessir réttir eru oft skapaðir svona út í loftið og ekki víst að það sé hægt að endurtaka þá alla...
Allt gengur sinn vanagang hér í 2.firði, búið að snjóa í fjöllin sem umkringja mig hér og hitinn alltaf við frostmark þegar maður vaknar. En samt neitar þessi blessuð mýfluga að drepast þannig að enn er verið að bíta menn, einn var meira segja bitinn rétt undir augað þannig að hann bólgnaði allur upp og var hálf óhuggulegur á að líta. En það hjaðnaði ótrúlega fljótt. Það er talsvert um það að kallarnir eru að vinna á línuveginum, að í raun að fjarlægja hann aftur og þá þarf að nesta þá upp. Þannig að það er mikill samlokugerð hér þessa dagana. Smurðar einhverjar 100 samlokur og kaffiuppáhelling sem fylgir því. Þeir eru allan daginn í þessu, flestir koma á venjulegum tíma í kvöldmat en ca 6 karlar koma ekki í hús aftur fyrr en að ganga 22. En við lokum kl 21 þannig að við setjum bara á diska fyrir þá sem bíða þeirra.
Sá það á vefnum áðan að Hornfirskir kartöflubændur sé hinir hressustu með uppskeruna hjá sér. Og það er nú aldeilis gott að uppskeran sé góð, því hún klikkaði alveg í Þykkvabænum þannig að þeir Hornfirsku hafa öll tromp á hendi sér varðandi íslenskar kartöflur. Það er líka frábært í þessu endalausa flóði af leiðinlegum, soglegum og niðurdrepandi fréttum frá Íslandi, skuli koma gleðilegar fréttir frá Hornafirði. Það er nefnilega fullt af slíkum sem hægt er að flytja, en þar sem við höfum engan fréttaritara frá stóru fjölmiðlunum er það allt of sjaldan sem fréttir frá okkur komast að hjá þeim. Þess vegna þætti mér það þjóðráð að bæjarsjóður myndir bara kaupa alvöru kvikmyndaupptökuvél og fela menningarmiðstöðinni að taka upp fréttir og myndir af mannlífinu og koma því á framfæri. Þetta væri ekki mikil fjárfesting en myndi skila sér margfalt til baka í formi jákvæðrar kynningar á bænum okkar og sveitarfélaginu öllu. Á menningarmiðstöðinni starfar mjög frambærilegt fólk sem myndi leysa svona verkefni með glans og í leiðinni að skrásetja daglegt líf Hornfirðinga. Þar á bæ er líka til frábært upptökutæki til útvarpsviðtala þannig að það ekkert til vanbúnaðar, bara drífa í þessu og dæla jákvæðum, fallegum og gleðilegum fréttum til íslenskra fjölmiðla sem eru annars að drukkna í æseif, esb, ólagrís og öðrum leiðindum.
Áfram með lífið, upp með fjörið, ávalt bjartsýn. Snúa hausnum fram, ekki endalaust afturábak...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
1.9.2009 | 01:38
Fínn mánudagur !! er ekki annars mánudagur ?
Ansi var þessi dagur eitthvað strangur. Hann byrjaði á því að við þurftum að senda eina grænlenska í bæinn, þurfti að hitta doksa, en hún kom aftur í kvöld með fulla vasa af pillum. Bakaði eins og óður maður í morgun, alskyns kökur og fínerý. En það kom eiginlega í bakið á mér í hádeginu því ég var búinn að hugsa mér að hafa spælegg með matnum, en svo þegar kom til átti ég aðeins sem samsvaraði einu eggi á mann. Ég ákvað að láta bara vaða á það, spældi alveg sem óður væri og urraði svo á alla þá sem ætluðu að taka fleiri en eitt. Aumingja pólverjarnir voru orðnir skíthræddir við mig því ég stóð og urraði, SOLO EGGO, því það var nú það eina sem mér datt í hug til að hafa samskipti við þá greyin, en þeir skildu þetta og einn skilaði meira segja öðru egginu sem hann var búinn að setja á diskinn enda kokkurinn alveg óður hinu megin við borðið, sveiflandi pönnuspaðanum út loftið og illur á svipinn. En þetta slapp til, allir fengu egg, nema ég, en það var allt í lagi....
Svo fékk ég fullt af vörum í dag, 8 bretti og sum mannhæðar há. Ég setti hér með eina mynd af því þegar eitt brettið kom, svolítið svona einkennandi við svona vinnu staði, allt stórt og gróft.
En það er akkúrat það sem ég kann best við þessa vinnu, ég er alveg búinn að sjá það að það hentar mér betur að vera með svona fullt að gera allan daginn, elda mat í tuga kílóavís og annað slíkt. Ef ég skoða það aðeins hvað það er í magni sem er að fara hér á dag þá bara t.d. í kaffitímanum eru að fara svona ca 6 gastróskúffukökur og 6 formkökur og svo auðvitað fullt af brauði og salötum og svoleiðis. Nú í matartímanum eru að fara svona ca 70-80 kg allt í allt, það er kjöt, kartöflur, sósa og súpa, svo bætist við grænmeti og brauð. Þetta líkar mér vel við.
Nú rignir í kvöld en það er búið að vera smá úði í allan dag, en blessuð rigningin er alveg skít köld, hitinn bara einhverjar 3°c þannig að maður gæti alveg vaknað við hvíta jörð...nei ég veit ekki.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
29.8.2009 | 10:00
Hlaupaklossar
Jæja hún hefur nú aldeilis flogið áfram þessi vika, enda búinn að vera nokkuð strembinn hér í eldhúsinu í 2.firði. Kampurinn alveg troðfullur, meira segja sofið á skrifstofunni, og svo hafa menn og konur verið að leggjast í flensu. Framan af vikunni vorum við 1 færri í eldhúsinu, þannig að það er bara gott að maður hefur mikla hlaupahæfileika á klossunum enda er maður alveg á fullu í 14 tíma þegar svona er. En nú er full mannað svo þetta er allt að lagast. Ég ætla að grilla í kvöld fyrir kallana, svínakjöt og lambakjöt. Ekki íslenskt heldur grænlenskt lamb, sem er reyndar að uppruna íslenskt því þetta er íslenskur fjárstofn.
Er búinn að vera hugsa mikið núna um íslenska pólitík, enda ekki lítið búið að ganga á undanfarið, sumir mæta fullir, aðrir öskra eins og smábörn á leikskóla og enginn skilur af hverju menn bera ekki virðingu fyrir þessu fólki sem situr á hinu háa" alþingi, og svo er forseti vor með hangandi hendi.... Ég get orðið svo reiður þegar ég er að hugsa um þetta þannig að ég ætla bara hætta því. Samt eitt, í svona stórum málum eins og var kosið um í gær, þá finnst mér alveg lámark að þingmenn taki afstöðu og kjósi annað hvort með eða á móti en sitji ekki hjá eins og gungur. Allir þingmenn sjálfstæðisflokksins sátu hjá nema Árni Johnssen og vantsgreiddi plebbinn sem ég man ekki hvað heitir. Og ég er bara helvá nægður með þingmann okkar sunnlendinga að þora að taka afstöðu, vera öðruvísi en hinir og kjósa eftir sannfæringu en ekki því sem formaðurinn leggur upp með. Og hana nú, þetta er held ég í fyrst skipti sem ég hampa þessum þingmanni, sem að mínu áliti á reyndar ekki að vera á þingi, en það er annað mál.
Hér er allt á fullu, verkið flýgur áfram, möstrin rísa hér á svæðinu, eitt var reist rétt við kampinn í gær og svo á eftir að strengja línuna á þetta dót allt saman. Haustið er komið með köldu röku lofti sem tekur á móti manni á morgnanna, en svo kemur sólinn og grillar mann fram eftir degi. Ég held að það styttist í fyrstu snjókomu, þá verður nú bara gaman.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
26.8.2009 | 00:22
Moldrok
Allt gekk sinn vanagang í dag, búið að vera mikil blíða, allt að +18°c og logn en svo þegar nálgaðist kvöldmat kom allt í einu talsverður vindur og varð hér þá allt svart af ryki enda jarðvegurinn orðinn ansi þurr. Allir gluggar hálfopnir í herbergjunum þannig að það barst vel inn hjá öllum. Bæjarstjórinn kom í heimsókn, drakk kaffi og þrumaðist um allt svæðið með fríðu föruneyti.
Búinn að skila kveðju til Svabba frá þeim systrum en hún var þurr þannig að þið verðið bara að kyssa hann sjálfar.... Skilaði líka kveðjunni frá Gísla, hún var líka þurr, samt var ég ekkert þurr á manninn.....
Bjó til þessar fínu fiskibollur í hádeginu, úr Þorski og Lúðu, urðu bara ljómandi góðar með lauksósu og kartöflum.
Nú er tveggja tíma mismunur á ísl og Græn. þannig að ég er búinn að vinna kl 23 á ísl tíma þannig að þegar ég blogga kemur það yfirleitt ekki inn fyrr en eftir miðnætti, þá kl 22 hjá mér. En núna í október held ég breytist þetta og þá verðum við 3 tímum á eftir...
Gott í bili, hálfgert bloggfrost
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
25.8.2009 | 00:01
Það gefur á bátinn við Grænland
Vaknaði snemma í morgun og græjaði hádegismatinnað mestu leyti og bakaði fyrir kaffið og skellti mér svo í bátsferð til Sisimiut til að versla inn. Silgdi með svakalega flottum bát, ársgömlum sem kostaði 2,5 milljónir danskar. Ægilega næs svona hraðbátur með tveimur herbergjum með tvíbreiðum rúmum, eldhúsi og WC með sturtu og öllum græjum. Álíka stór og þessir svokölluðu strætóar heima á Íslandi en talsvert huggulegri. Verslaði nokkurnveginn allt sem ég þurfti til að klára þessa viku eða fram að því að ég fæ vörurnar sem ég pantaði 03. ágúst. Rúnntaði aðeins um bæjinn, fékk grænleskan hamborgara í matinn, gat verið betri en bara ágætur samt. Fór í 2 mynjagripaverslanir en sá ekkert sem mig langði í, bara einhver útskorinn horn og bangsa...En fann svo aðalbúðina í bænum en hún opnar kl 16 og lokar kl 18 þannig að það hentaði ekki alveg, en það koma dagar eftir þennan dag.
Fengum svolítið puð á okkur á heimleiðinni, þá var búið að setja tvö vörubretti af matargóssi í bátinn, en þetta var bara fínt. Hef bara aldrei upplifað svona tíðar sjóferðir áður, gaman að upplifa þær.
Kláraði að úrbeina uxann sem Svavar skaut, (Alla og Stína þekkja hann) leist bara vel á þetta kjöt.
Það voru ákveðin tímamót núna í þessu verki í dag, eða réttara sagt í kvöld, en þá var lokið við síðasta skammtinn af vorrúllum ..... en eins og ég hef áður talað um hér var talsvert til af þeim þegar ég mætti á svæðið og voru þær búnar að vera í matinn ca tvisvar í viku frá því í apríl, þannig að það varð talsverður fögnuður í matsalnum þegar þetta var tilkynnt. Og verða þær ekki keyptar inn aftru meðan ég ræð hér ríkjum.
Hvað er þetta með snúrstaurinn í Bjarmalandi, nú brotnaði hann í dag eftir árás frá trampólíninu.... og þetta er þá snúrstaur númer 2 sem eyðileggst á 5 árum. En það er ágætt að þurfa þá ekki að leyta að trampóinu, það hlýtur að hafa hangið í staurnum, er ekki bara hægt að hengja þvottinn á trampóið í staðinn....!!
Jæja ég er farinn í sturtu og í rúmið enda með sjóriðu, allt farið að vagga hér innan dyra
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Um bloggið
Gauti Árnason
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 347
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar