Miðvikudagur

Búðirnar i vetrarbúningiÍ  dag var algjört póstkorta veður, snjór yfir öllu, frost þannig að það glitraði á snjóinn, blanka logn og sól. Svona var þetta í allan dag. Og í dag er líka afmælisdagur hennar Aðalheiðar tengdamóður minnar, til lukku með það gæskan. Ég veit að Ragga og hún nafna hennar, Sólin mín hafa stjanað við hana í dag. Ef mér misminnir ekki þá átti hún amma mín Sigurbjörg Gísladóttir líka afmæli þennan dag, nú ef það er vitlaust hjá mér þá vinsamlegast leiðréttið það.  Merkilegt hvað það eru margir sem maður þekkir sem eiga afmæli í október.  Gísli Sv, Elli, Kári Svan, Árni Gísla, Guðlaug, Alla, amma og svo fleiri og fleiri. T.d hálfur bekkurinn hjá Kára, eða svo næstum, á afmæli í október. Hvað skildi nú valda þessu, er það kuldinn í Janúar...ja maður spyr sig. Nei ég held að ástæðan sé hvað við borðum í janúar og febrúar, sem sagt Þorramaturinn. Já ég held að þetta góðgæti, sviðasulta, blóðmör, lundabaggar og svo maður tali nú ekki um pungana sé gríðarlega gott fyrir frjósemina, ja svo maður tali nú ekki um hákarlinn og brennsann. Og þá er alveg sama hvort kynið borðar meira af þessu íslenska lífræna Viagra, þetta bara greinilega svínvirkar.  Mér finnst þetta miklu líklegri skýring og já líka skemmtilegri og þarna er kanski kominn hugsanleg viðskiptahugmynd af útflutningsvöru, lífrænt frjósemislyf. Skildi maður fá styrk í þetta....Sólargeisli

Það eru ýmis hlutverk sem kokkinum eru ætluð á svona stað. Jú hann verður að elda matinn og svoleiðis, sjá um reksturinn á eldhúsinu og mannahald, þrifin á öllum herbergjum og göngum. Síðan tekur hann að sér að vera í hlutverki sálfræðingsins á svæðinu. Menn og konur þurfa jú að létta stundum á hugsunum sínum og þá er ágætt að koma bara í eldhúsið, fá sér kaffibolla og láta bara kokkinn sálgreina sig. Og honum tekst það bara ágætlega, held ég, alla vegna fer enginn grátandi út frá þessum dr. En kokkurinn hefur líka það hlutverk að sjá um líkin. Já líkin og líkhúsið. Og ekki í fyrst sinn svo sem hann gerir það....Já hann og hans fólk gengur um ganga, með poka í hönd og safnar líkum, færir það svo í þartilgerðar kistur sem eru svo fluttar í þartilgert líkhús. Þar er þeim, kistunum, raðað upp í loft og bíða þar flutnings til næsta bæjar, í næstu sókn.  Hérna er verið að tala um umbúðir utan um drykkjum, bæði áfengum og óáfengum. Kokkurinn var í þessu hlutverki í dag, það er að keyra með líkin í kistunum út af lagernum í eldhúsinu og inn í gám, líkhúsið.  Hvað er nú huggulegra á góðvirðisdegi en að fara fjölmargar ferðar á fjórhjóli, með lík á pallinum og njóta sólarinnar. En öllu gamni slepptu þá notaði ég góða veðrið til að koma flöskunum inn í gám sem verður svo fluttur í bæinn meðan fjörðurinn er ennþá ófrosinn.

Hvítur rebbiÞað kom einn hvítur rebbi í heimsókn til okkar í dag, það var fyrsti hvíti refurinn sem ég hef séð hér, þeir eru annars gráir eða næstum svartir.

Set hér inn link á svona myndasíðu sem ég var að útbúa svona til prufu.


Einhverstaðar einhverntímann

Mánudagskvöld og  allt í rólegheitunum hér í 2.firði. Búið að snjóa talsvert núna um helgina og í dag. Búinn að vera talsverður gustur í dag þannig að það er komnir skaflar hér og þar. Kokkurinn hefur notið þess að klæða sig upp og þrumast út með skófluna og reyna að þyrla þessu hvíta hingað og þangað, svona til að halda gönguleiðum greiðfærum. Fram eftir degi leit út fyrir að það yrði mjótt á munum hvort kokkurinn eða vindurinn væri sigurvegari dagsins en þegar kokkurinn hætti að vinna í kvöld játaði hann sig sigraðan og gekk hálf svekktur inn í camp. En það var eins og við manninn mælt, það datt á dúnalogn þannig að það samdist um vopnahlé til morguns milli stríðandi fylkinga.

Helgin gekk ljúflega fyrir sig að vanda, skotið var eitt hreindýr á sunndaginn þannig að það bíður þess að ég rífi úr því beinin og pakki í kistuna góðu. Fer nú að verða kominn tími á að éta eitthvað úr þessari villibráðarkistu.  Annars er maður búinn að vera í hálfgerðu jólastuði  þessa dagana, langar mest að spila bara jóladiskana og baka smákökur, en ætli maður verði ekki að bíða aðeins, svona til að gera ekki alla í kringum sig vitlausa. Annars drapst á ljósavélinni hjá okkur í kvöld þannig að við hlupum til og kveikum á fullt af kertum í matsalnum þannig að þetta varð bara voða kósý hjá okkur.

Keypti mér um daginn nýja diskinn með Buff og Magga Eiríks, og í stuttu máli, bara góður. Yndislegt að kveikja bara á góðum disk og sleppa því að hlusta á Icesave, svínaflensu eða eitthvað tuð í þessum pólitíkusum sem hertaka útvarpið, líka voða gott að sleppa því að hlusta á Rás 2 á mánudagskvöldum þegar Bubbi Morteins leikur þar lausum hala og talar um sjálfan sig. Skelfilegt í gærkvöldi þegar var verið að senda út upptökur frá Airwaves ... þar sem berfætta færeyska mærin stóð uppá sviði og vældi og skældi, dísess kræst, þá var mér öllum lokið, úff. Mæli frekar með góðum CD og bók.


Kári afmælisdrengur

Nú á hann Kári minn afmæli í dag, 8 ára fótboltastrákur. Til hamingju með afmælið stóri strákur, set inn nokkrar myndir af honum hér. Elska þig ofur heitt, knús og kossar á alla

 Sindrastrákur Kósýkvöld i Bjarmalandi

 

 

 

 

 

 

Í Lóninu í Október  Kári Markmaður


Mættur aftur

Jæja þá er maður kominn aftur hér inn í 2.fjörð.  Ferðin gekk bara áfalllaust fyrir sig þó svo að löng væri, en vegna mótvinds þá varð flugið rúmir 4 tíma í stað 3. Brunaði bara beint inn í fjörð á Lómnum í blíða veðri. En núna á föstudagskvöldi er veðurspáin eitthvað að sína klærnar og spáir roki og snjókomu. Það er ágætt að fá meiri snjó til að lýsa upp skammdegið.

 Að vísu var blóðrautt sólarlag hér á fimmtudagskvöld þannig að það gladdi okkur fjölmarga áhugaljósmyndara, en hér er mikið úrval af þeim enda ýmislegt sem ber fyrir augu manna hér sem gaman er að festa á „filmu"

 Blóðrautt sólarlag

 

 

 

 

 

 

Nú á hann Kári minn afmæli á morgun 17.10 og verður 8 ára foli. Kári er svo heppinn að mamma hans er komin austur til að halda uppá afmælið fyrir hann, og verður það eflaust hin mesta skemmtun. Einnig á hann Árni Gíslason bróðursonur minn afmæli þann 17. en ég veit ekkert hvað hann er gamall en hann er alla vega foli, það er eitt sem víst er.

Allt er við það sama hér á svæðinu, karla koma og aðrir fara. Nú er allt að fyllast af alskyns sérfræðingum í hinum og þessum fræðum, rekstrar, verk, rafmagns, véla og hvað þetta heitir nú allt saman.

Þjóðstjórn strax

Ná er það ljóst að þessi ríkisstjórn er sprungin og á Jóhanna að slíta þessu strax. Nú eiga allir flokkar, allir kjörnir fulltrúar þessarar þjóðar að koma saman að áframhaldandi uppbyggingu þessa lands okkar Íslendinga. Ögmundur hefði bara þurft að taka blessaðan umhverfisráðherran með sér því hún er búin að setja allt uppí loft með þessari nýjustu ákvörðun sinni, þvílík vitleysa á þessum tímum.

Áfram Ísland


mbl.is Ögmundur segir af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimferð

Jæja þá er það Sisimiut í kvöld og Reykjavík á morgun, fimmtudag. Já nú er tæplega 8 vikna úthaldi að ljúka og ég flýg í faðm fjölskyldunnar  sem verður væntanlega komin til Reykjavíkur á undan mér á morgun. Það verður nú stuð maður......Það er þétt dagskrá í Reykjavík að vanda, hitta ættingja, ruglast um í einhverjum búðum, afmæli hjá Gísla bróður og svo hitt og þetta. Svo á að skella sér á Kardemónubæinn og reyna að vera svoldið menningarlegur svona, fyrst maður er nú kominn í borgina ......

Svo er það bara fjörðurinn fagri á mánudaginn en þá skiljum við Bjarmalandsfrúnna eftir í Reykjavík þar sem hún ætlar að læra eitthvað nýtt......

Blessi ykkur öll, hlakka til að sjá ykkur


Snjókoma

Horft út um gluggan hjá mérJæja nú held ég að veturinn sé endanlega kominn hingað í 2.fjörð.  Nú snjóar og snjóar alveg endalaust. Frost í jörðu þannig að þetta bara hrúgast bara hér upp. Tek það nú fram að hér er Hornfirðingur að skrifa....Nei nei öllu gamni slepptu, þetta er alveg stanslaus snjókoma, hálfgerð hundslappadrífa. En það er svo skemmtilegt að þá breytist allt umhverfið þegar það fær svona rjómaslettu yfir sig, verður voðalega fallegt allt saman. Þessu fylgir því náttúrulega að nú styttist í að fjörðinn leggi, en á hverjum morgni núna er nokkra sentrimetra ísslæða  yfir öllu, en hefur bráðnað yfir daginn hingað til. Línukarlarnir fóru frá okkur í dag og halda sína leið til Slóvakíu seinna í vikunni. Sömuleiðis hafa verið að fara hinir og þessir, þannig að það hefur fækkað að hér á staðnum, þannig að við stefnum á að geta lokað einum kampnum núna í vikunni. Þetta er þróunin núna framundan þegar verkið er að breytast svona á lokasprettinum.

Á mánudaginn horfðum við á Rocky 5, eða ætluðum,,,, gáfumst upp þegar hún var meira en hálfnuð og Stalón búinn að grenja úr sér augun alveg hægri vinstri, en þá voru við allir farnir að geispa, hver í kappi við annan. En létum okkur hafa það að klára hana í gær og ætlum að skella okkur á Rocky 6 í kvöld. Það er loka myndin í þessari seríu, og það er nú ágætt að þetta er búið.....en gaman af þessu.


Sprengidagur (sunnudagur)

Þá er sprengidagurinn mikli liðinn, en það var sunnudagurinn síðasti. Þá var sprengt síðasta haftið út í vatnið mikla, sú sprenging tókst með miklum ágætum, að viðstöddum flestum íbúum hér í 2.firði. Gatið sjálft er á 18m dýpi þannig að þetta var myndarleg loftbóla sem gaus upp í vatninu eins og myndin sýnir. Grænland , haust 2009 194Svo þegar þessu var lokið var haldið áfram að sprengja inn í fjallinu, en það var neðar í göngunum. Þar var skilið eftir 3.metra haft, svona vara vara. Þess var ekki þörf þannig að það var sprengt og er verið að moka því út núna, þannig að þá er hægt að fara fylla göngin af vatni.

Ég ákvað að hafa bara líka sprengidaginn mikla í eldhúsinu. Hann byrjaði að vanda á beikoni , eggjum, pylsum og frönskum.  Síðan kom tiltölulega léttur hádegisverður, svona TTK ( tekiðtilíkæli) Svo var skellt í nokkrar „konnýar" eða súkkulaðikökur. Það hurfu 4 svoleiðis ásamt rjóma og 6 skonsubrauðtertur. Svo var komið að grillsteikinni, en það var grillað lamb og svín og ís á eftir. Svo þegar þessu lauk öllu saman var horft á Rocky 4. Þannig var nú gærdagurinn, enda var ég alveg sprunginn  þegar ég skreið uppí rúm....

Nú er sunnan kaldaskítur, snjókoma í loftinu og kaldur gustur. En í gær var algjört logn og sól. Þegar ég segi algjört þá meina ég sko algjört. Fjörðurinn alveg sléttur og ekki hreyfðist hár á höfði þó maður sé orðinn ansi hármikill.

Bless´ykkur


Laugardagur

Það er allt búið að vera eðlilegt þessa síðustu daga, spennan að byggjast upp í sambandi við sprenginguna á morgun, þegar vatninu verður hleypt inn í göngin. Það fer að vísu ekki alla leið að virkjuninni strax heldur bara að stórri og þykkri stálloku sem er ofarlega í göngunum. Það voru mannaskipti á fimmtudaginn síðasta en það fækkaði ekkert á svæðinu.  Ég tók eftir því að fimmtudaginn að það komu hér menn á bát og lögðust hér við ankeri hér tiltölulega nálægt landi. Kom í ljós að þetta voru feðgar á leið á veiðar. Sigldu þeir svo í burtu í morgun aftur með feng sinn, ein 3-4 dýr. Þetta var 10 ára strákur og pabbi hans og höfðu þeir gist í tjaldi hér uppi við vatnið. Set hér eina mynd með sem ég tók af bátnum þeirra. Grænland , haust 2009 148Það kom smá snjór hér um daginn en síðan er sólin búin að skína og bræða snjóinn. En það er talverður sjór hér í fjöllum þannig að það er stutt í það að hann komi almennilega hér niður í byggð.

Það er Rocky þema núna hér í setustofunni, það er að segja við erum að horfa á Rocky myndirnar, búnir með 1 og 2 og svo er 3 í kvöld. Dísess kræst hvað þetta er slappar myndir , og hvað hann getur grenjað  mikið...alveg að gera mann brjálaðan. En þetta voru aðal myndirnar og sum atriðinn eru alveg í fersku mynni. Eins og t.d. þegar hann hleypur upp allar tröppurnar, gargandi og gólandi, eða þessar svakalegu axlarhreyfingar þegar hann er að hlaupa, hahahahaha

Það var einn sem sagði við mig í gær að honum langaði svo í brauðtertu þannig að ég bakaði fullt af skonsubotnum í morgun og ætla að hafa svoleiðis brauðtertu á morgun. Verst ef þeir fara nú að koma með svona óskalista.... annars ágætt að fá svoleiðis því maður verður stundum hálf hugmyndasnauður, bakar og eldar alltaf það sama. En það er svo sem alltaf étið. Soðinn ýsa  í hádeginu og nautasteik í kvöld, bara gott, og Rocky í eftirmat, hihihi

Blessi ykkur


Miðvikudagur

Nú er kominn miðvikudagur og það bara merkisdagur og stór áfangi í verkinu, en síðasta steypan var í dag inn í göngum, við einn tappann , en þar kemur gríðarleg stálhurð sem skilur að aðkomugöng og vatnsgöng.  Er það síðast stóra steypan í verkinu og var haldið uppá það með rjómatertum í kaffinu og hamborgarhrygg í kvöldmatinn. Svo var einnig verið að kveðja nokkra sem fara heim á morgun, meðal annars pólverjana sem hafa verið í járnabindingum, en það eru sömu kallar og voru í Fljótsdalvirkjun. Einnig fóru í dag og fara á morgun nokkrir íslendingar, Ístaks menn sem eru að fara til annarra verka hjá fyrirtækinu, þá til Noregs í gangnagerð þar. Þetta eru alltaf tímamót í svona verkum þegar farið er að síga á seinni hlutann í þeim, þá fer hópurinn að tvístrast, sumir með vissa framtíð og aðrir sem vita ekkert hvað þeir fara að gera. Ég veit að ég verð hér alla vega út nóvember og líkleg eitthvað fram í desember,  svo veit ég ekki meir. 

Í gærkvöldi fór hann Páll Helgi Kjartansson með mig í rúnt hér um svæðið til að sýna mér það sem ég hafði ekki séð áður. Við fórum út um allt, inní öll hús og göng. Þetta er náttúrulega magnað að þetta skuli vera hægt, að sprengja stærðar helli inní fjalli og byggja þar svo hús, leggja að því húsi margra kílómetra af göngum í allar áttir og sprengja svo gat á fjallið og taka inn vatnið þar. Við fórum alveg inn að tappanum sem er út í vatnið, en þar er 3 metra haft sem skilur að vatnið og göngin, sem verður svo líklega sprengt á sunnudaginn. Það var alveg magnað að sjá það og upplifa en þar er búið að bora 90 holur í bergið þar sem sprengiefninu verður hlaðið í og svo kveikt í. En svo að því loknu ætlum við líka að gera extra vel við okkur í mat, grilla og eitthvað skemmtilegt.

Veðrið er mjög þurrt, kaldur gustur þannig að hendurnar á mér eru alveg rauðglóandi og sterakremið að klárast, en þá kemur líklega til sögunar penzimið víðfræga og oft um rædda hér á þessum vettvangi. Vonandi er eitthvað trukk í því en það eru nú bara 2 vikur þar til ég kem til Íslands þannig að þá er hægt að byrgja sig upp aftur.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Gauti Árnason

Höfundur

Gauti Árnason
Gauti Árnason

Nokkuð staðfastur ungur maður með ákveðnar hugmyndir um lífið, 4 barna faðir sem lifir góðu lífi á Hornafirði

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Svæði hér í Patiksoq
  • IMG 3119
  • IMG 3117
  • Vegagerð
  • Rödeby

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 347

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband