Sunnudagskvöld

Það er búið að vera ansi mikið annríki hjá mér síðustu daga, kampurinn alveg troðfullur og þar af leiðandi matsalurinn tvísetinn. En þetta er mikið fjör þegar svona er, mikill matur sem fer í mannskapinn. Ég þarf að bruna út í Sisimiut og reyna að versla eitthvað inn fyrir vikuna því allt er nú að klárast og ég fæ ekki vörur frá Danmörku fyrr ca 1. sept. Vonandi er eitthvað til hjá þeim körlunum núna, ég kláraði allar beikonbirgðir í öllum búðunum fyrir helgi !!

 

Uxinn er enn að veltast hérna í kringum búðirnar, er núna hér beint fyrir ofan okkur, alveg lengst uppí fjalli, rétt sést í dökkan díl þegar hann hreyfir sig eitthvað. Einn slíkur var skotinn af Ístaks manni upp í Oppland og er ég byrjaður á að úrbeina hann, og úrbeinaði líka eitt hreindýr sem okkur áskotnaðist í dag, en nú er byrjað eitthvað tímabil hjá heimamönnum, þeir koma hér inn í fjörð á bátunum sínum, leggja þeim við kæja og labba hér inn á hálendið til hreindýra veiða. Það komu tveir í dag með 10 dýr og fengum við eitt hjá þeim fyrir að keyra þá með fenginn. Þannig að kanski fæ ég meira hjá þeim og hef í matinn, hver veit.

 

Búið að vera alskonar gestir hér um helgina, og núna fram eftir vikunni. Einhver hópur bæjarstarfsmanna kom í dag og bæjarstjórinn og einhverjir pólitíkusar koma á þriðjudaginn. Ætli að það sé ekki rétt að rökræða aðeins við þá og hvetja þá til að drullast til að taka til í þessum bæ sínum, hann er óttalega sóðalegur. Algjör synd því þetta gæti alveg verið hinn huggulegasti bær með mikinn sjarma.

 

Stór dagur hjá Rafni mínum á morgun mánudag, 1. dagur í framhaldsskóla. Afskaplega ánægður og stoltur af þessum stóra og myndarlega dreng mínum. Hann er búinn að vera rosalega duglegur að hjálpa mömmu sinni núna sem áður og ég veit að hann verður það áfram. Reyndar ég ég mjög montinn af öllum mínum börnum, segi alskonar sögur af þeim við hvert tækifæri. Svo maður tali nú ekki um hana Röggu mína, það er nú dugnaðarforkur sem á mikið hrós skilið. Elska ykkur öll.....


Nokkuð hissa

 

Það hafa orðið nokkrar mannabreytingar hér í eldhúsinu núna á síðustu dögum. Þegar ég kom úr fríi voru báðar grænlensku hættar og ein ný byrjuð. Sú eldri hætti því henni leiddist svo, við töluðum ekki nóg góða dönsku ..... svo datt sú yngri í það, átti að mæta kl 0500 en mætti ekki fyrr en kl 12, og var send heim.  Þá vildi sú eldri endilega byrja aftur úr því að hin væri hætt og önnur byrjuð og hún átti að mæta í dag, boðaði sig í bátinn sem fór kl 2030 frá Sisimiut, en mætti ekki, örugglega dottin í það. Svo fóru heim í dag þeir Júlli og Árni en þeir eru búnir að vera hér í sumar, Júlli í 10 vikur samfleytt og gera aðrir betur. Var hálf tvísýnt með að þeir kæmust heim í dag vegna þoku í bænum en vélin gat lent kl 1600, en átti að lenda kl 0900.

Fékk einn nýjan strák með vélinni í dag þannig að við erum 3 íslensk, 2 lettneskar og svo áttu að vera 2 grænleskar en er bara 1. Kemur í ljós hvort þetta dugar eða hvort ég þurfi að bæta við einum og þá verður það íslendingur, það er einhvern veginn einfaldara, þetta eru ekki fordómar, tek það skýrt fram, bara staðreynd.

 

Búið að rigna í allan dag, bara yndislegt, loftið hreint og engar flugar, annars eru þær ekki mikið á sveimi núna, búið að vera kalt, örugglega farið niður undir frostmark á nóttinni.

 

Var að spjalla við einn jarðfræðing í dag og kom þá í ljós að hann er skólafélagi Gísla Sverris frá Laugarvatni, Björgvin heitir hann.

 

Fórum í morgun af stað að skoða uxan aftur en hann var á álitlegum stað í morgun, og vorum vopnaðir byssu í þetta skiptið, en þegar við mættum var hann horfinn. Úr því að ég gat ekki farið á fyrsta í gæs á íslandi í morgun var þetta ágætt í staðinn. Við náum honum eða vinum hans í haust... muuu. Kem með myndarlega haus heim í haust af flottum tarfi,  hengi hann upp í stofunni....

 

Muskox

 

 


2. daga ferðalag í vinnuna

graenland_juli_2009_276_897575.jpg

Jæja eftir yndislegt frí með fjölskyldunni var lagt af stað til vinnu aðfaranótt mánudagsins 17.08 kl 0330. Brunað beint til Keflavíkur og tékkað inn þar. Hitti þar Martein aðstoðar staðarstjóra hér og einnig staðarstjórann í Nuuk. Eftir venjulegar skoðunarferðir í búðir Leifs Eiríkssonar var haldið útí vél enda var áætluð brottför kl 0945 og þá til Nuuk. Ég kom mér vel fyrir í vélinni, skelli upp nýja uppblásna koddanum sem ég keypti og var alveg tilbúinn til flugs þegar babb kom í bátinn. Annar hreifillinn á flugvélinn fór ekki í gang, sama hvað var reynt, og á endanum kom svona rafmagnsbrunafíla og þá skömmu síðar voru allir sendir inn í Leifsstöð aftur. Og þar biðum við ásamt öðrum farþegum til Nuuk til kl 1630 að stigið var um borð í Fokker og þrumast af stað. Þetta þýddi að við Marteinn vorum búnir að missa af vélinn til Sisimiut þann daginn en það var flug aftur kl 0700 frá Nuuk til Sisimiut daginn á eftir.

Það var ekkert annað að gera úr þessu en að taka þessu bara með stökustu ró, skoðuðum vinnusvæði Ístaksmanna í Nuuk og borðuðum þar kvöldmat.

Gistum við í íbúð sem Ístak leigir í Nuuk. Ræs kl 0530 og mæting kl 0600. Mér leist nú ekkert á veðrið þegar ég vaknaði, dimm þoka lá yfir öllu og frekar ófrýnilegt til flugs þann daginn. En upp fór vélinn og var þá haldið til bæjar hér á austurströndinni sem heitir Sukkertoppen á dönskum, millilent þar og skipt um farþega. Flogið þaðan til Syðri Staumsfjarðar og millilent þar á alþjóðavellinum þeirra, og einhverjir fóru út þar. Síðan var flogið áfram og lent loksins í Sisimiut. Alls tók þetta ca 1 ½ -2 klst með stoppum. Þegar til Sisimiut var komið var ákveðið að bíða eftir nokkrum mönnum sem voru að koma annarsstaðar frá og sigla bara eina ferð. Var siglt af stað ca 1400 og komnir 1530.  Unnið til 2100 og sofnaður kl 2200, alveg ruglaður á þessum öllu saman.

 

Hér hefur fjölgað mannskapnum, en línukallarnir eru komnir hingað til að strekkja línuna hingað í stöðvarhúsið. En þeir eru búnir með línuna frá Sisimiut, yfir 1. fjörð og hér yfir fjöllinn milli 1. og 2. fjarðar, en eru að vinna að því að strekja línuna, ( 3 strengi og 1 ljósleiðara) hér inn fjörðinn og að stöðvarhúsinu. Þetta eru Slóvenar, með sítt að aftan og allan pakkann....... Hálf ruddalegir karlar en eflaust ágætis skinn greyin. Ætla mér ekkert að kynnast þeim neitt nánar.

 

Eftir hádegið í dag þustu menn hér út með myndavélar að vopni því hér hinumeginn við fjörðinn var eitt Sauðnaut, Muskus, að veltast. Var hann ekkert að stressa sig á þessu, tölti bara sína leið inn fjörðinn þó svo að menn reyndu að komast eins nálægt honum og hægt var til að ná myndum. Skömmu síðar kom þessi indislega rigning og er búið að rigna síðan.

 

Nú er vaktaskipti á morgun, 16 fara en 26 koma í staðinn þannig að stuðið heldur áfram hér í 2. fiðri, enda er stefnt á að sprengja síðasta haftið og hleypa vatni í gönginn, 9. sept.  Síðan tekur við heilmikill frágangur og eftirlit með öllu dótinu. Það var tilkynnt í dag að sá danski kæmi ekkert aftur í eldhúið, nema þá til að leysa mig af, en það á eftir að koma í ljós hvort það gangi eitthvað.

 


Heimferð ! :)

Jæja nú er fyrst úthaldi að ljúka, heim á morgun, fimmtudag 06. ágúst. Hlakka mikið til að sjá alla og knúsa. Allt gekk sinn vana gang í dag, moppuðum alla forstofuna, gólf, veggi og loft...Einhver hafði það á orði hvort það væri búið að mála, þannig að þeir taka nú eftir þessu kalla greyin...

Fékk brauð frá bakaranum, fín brauð, 30 stykki og öll eins... bað um bland en það hefur verið of flókið, en þau komu og það er fyrir öllu. Ljótt að segja það en ég nenni ekki að baka öll morgunverðarbrauðin líka, það er nóg í bili alla vega að baka matarbrauðin og kaffibrauð. Kanski nenni ég því þegar ég kem aftur, maður veit aldrei. Fékk að vita það að stóra pöntunin sem ég lagði inn mánudaginn 03.ágúst, kjöt, fiskur og annað slíkt, kemur til mín þriðjudaginn 01.september ..... dísess kræst maður, það er spurning hvursu mörg ár maður fór eiginlega þar maður flaug hingað vestur, það er ekki bara afturábak á klukkunni heldur árum líka. EN gaman af því, maður tekur bara á þessu, fer bara til veiða eða eitthvað.

 

En ég er farinn í frí til Íslands. Bæ


Brakandi blíða

Þegar bloggandinn er ekki alveg svífandi yfir manni getur maður alltaf skrifað eitthvað um veðrið... En í dag er búin að vera alveg brakandi blíða. 20°c + og algjört logn. Mér fannst í morgun þegar ég mætti, vera héla á fyrðinum hérna í botninum en það var nú ekki svo gott, enda var þetta flugnadagurinn mikli. Annars segja mér fróðari menn um flugur að moskítuflugan sé að hverfa á þessu sumri en þá kemur svokölluð ágústfluga, sem er lítið bitmý. Hún bítur "bara" eins og það sé einhver huggun í því, en ég er að fá frí frá þeim öllum, í bili.

 

Fékk smá "kast" eftir hádegið, en það er þannig að Ístak hefur boðið heimamönnum að koma og skoða vinnusvæðið einu sinni á ári og er það núna á Sunndaginn, og þá er ég heima, úhú. Þá koma heimamenn siglandi á sínum bátum frá Sisimiut og þrumast um svæðið og þiggja svo kaffi í mötuneytinu. Í fyrra komu um 300 manns og var fjörðurinn eins og Laugarvegurinn, þétt setinn af bátum. Voru menn á því að það þyrfti að reyna stjórna þessari umferð eitthvað, t.d. með ljósum eða hringtorgi.

Ég er nátturulega alinn upp við það að hafa hreint í kringum mig og sérstaklega þegar gestum er boðið heim, þannig að við þrumuðumst af stað með tusku að vopni, en lögðum fljótlega niður vopn og náðum í poka, því forstofan var full af grútskítugum vinnugöllum... sem flugu ofaní poka og fyllti eins 10 poka. Var þessu skutlað uppá pallbíl og þrumast með þetta í þvottahúsið, þar sem er iðnaðarþvottavél og þurrkari. Þar sem ég mikill reynslubolti úr stórþvottahúsum, reyndar alinn upp í einu slíku, þá ákvað ég að taka þetta verkefni að mér og þvoðið og þurrkaði alveg eins brjálæðingur í allan dag, og ferðaðist á milli eldhúss og þvottahúss á sexhjóli, sem við notum reyndar til að fara út með ruslið...hahaha, þannig að kokkurinn þeyttist á milli svæði eins og stormsveipur með lokaðan munninn til að gleypa engar flugur.

Þannig að við getum haldið áfram á morgun, þá vopnuð tuskum til að þrífa veggi og annað skemmtilegt.

 

Eldaði fisk í kvöld, bleikju sem var veidd hér í ánni, þó ekki með háfnum, og grænlenska smálúðu, mikið gott.

 

Hlakka mikið til að koma heim og knúsast í fólkinu mínu, konu, börnum, hundi og ketti. Og svo auðvitað mömmu, ekki síst.

Sigli frá 2.firði til Sisimiut kl 0700 á grænlenskum tíma eða kl 0500 á ísl

flogið frá Sisimiut og lent á Reykjarvíkurvelli kl 1700 á ísl tíma (4 tíma flug)

keyrt heim í einum spreng en á löglegum hraða, vonandi kominn kl 2300.......

bara gaman

 

Þegar ég skrifaði í gær að ég vissi ekki hvað ég yrði lengi hér í næsta holli er það rétt, ég hef ekki hugmynd um það því ef sá danski mætir ekki er líklega enginn ákeðinn til að leysa mig af þannig að ég verð kanski í 4-6-8 vikur, hef ekki hugmynd. Verkið klárast í nóv - des og þá er spurning hvað gerist þá ?. En við stressum okkur ekki á því, þá verður búið að opna nýjar dyr og enginn veit hvað leynist þar. Svona er þetta bara í þessum bransa, maður verður bara að fljóta með

Gott í bili úr 2.firði í algjörri stillu, fjörðurinn spegilsléttur og sól í fjallatindum kl 22.11

 


Ísland- Best í heimi

Þrátt fyrir að ég væri með flugnanet á hausnum í gær þá náði ein að bíta mig í hausinn, í gegnum netið... en hvað um það, ég fer nú alveg að fá frí frá þeim blessuðum. En það var ákveðið í dag að ég færi heim á fimmtudaginn 06.ágúst og út aftur 17. ágúst. Þetta er gert vegna þess að sá sem hefur verið hér uppá hálendinu og á að leysa mig af, fer heim þann 20.ágúst, þannig að ef sá danski kemur ekki aftur, ( sem ég held að sé ákveðið ) þá fengi ég ekkert frí fyrr en í ca október... þannig að það er fínt að koma aðeins heim núna, þó svo að ég viti ekki hvað ég verði svo lengi eftir þetta frí. En það kemur bara í ljós. Allavega hlakkar mig mikið til að koma heim í Bjarmaland og hitta fólkið mitt. Er reyndar að spegúlegra að fara strax á föstud norður á Sauðarkrók á fótboltamót með þeim Ísari og Kára. Ragga, Aðalheiður og vonandi Rafn verða fulltrúar okkar á ættarmótinu í Breiðdalnum. Þannig að ef einhver þarna úti er boðinn og búinn til að leysa hana Röggu mína af á Café Tulinius þá væri það gott, ef ekki þá lokum við bara á laugardaginn. En er ekki einhver sem hefði gaman af því að standi á kaffihúsi einn dag og dæla út bakkelsi og drykkjum.

 

Er að hlusta á útsendinu frá Bræðslunni á Borgarfirði Eystri, nú er Megas að bulla en Þursaflokkurinn var áðan. Þarna hefur greinilega verið mikið stuð og gaman að vera.

 

Mér finnst stundum eins og ég sé kominn nokkuð mörg ár aftur í tímann þegar kemur að innkaupum á vörum fyrir eldhúsið. Í dag var ég t.d. að leggja inn pöntum til fyrirtækis sem er staðsett í Nuuk og er svona heildsala með allt mögulegt er þarf fyrir svona dæmi. En ég má eiga von á þessum vörum eftir ca 3 vikur..... Ok það erekki hægt að keyra með þetta hingað en dísess kræst. Svo í dag var ég líka að panta hjá fyrirtæki í Sisimiut sem er svona lager fyrir matvöruverslunina í bænum, sem er reyndar líka lyfabúðin, vínbúðinn, selur föt og byssur og allt þar á milli. Þar var ég að panta frosin brauð, allt í góðu með það, nema að ég fæ svo hringingu þar sem mér var tilkynnt að það væri ekkert brauð til og kæmi ekki fyrr en í endaðann ágúst... !!!!! Þannig að þá var ákveðið að reyna við bakarann í bænum og athuga hvort hann gæti afgreitt okkur með ca 50 brauð eða svo, og nú á eftir að reyna á það, kanski verða þau tilbúinn á þriðjudaginn í næstu viku, hver veit ?

 

Svona ganga nú hlutirnir svoldið fyrir sig hér á Grænlandi, kemur ekki allt daginn á eftir úr höfuðstaðnum eins og við eigum að venjast á Íslandi, Íslandinu góða.

 

Ísland-Best í heimi !!!

Skál

Hlakka ofboðslega að koma heim, því heima er best


Þjóðhátíðarstemmning

Dagarnir hafa liðið áfram sinn vana gang, sofa, elda, sofa. Braut hversdagsleikann upp í gær með flottri grillveislu. Bauð uppá svínahnakkasneiðar og nautafillet, kartöflur, tvennskonar kartöflur og meðlæti. Heit eplakaka og ís í eftirmat, bara gaman. Svo var ég alveg ákveðinn í því að hlusta á Árna Johnsen en þá kom reynsluleysi mitt gagnvar þjóðhátið í ljós. Hann er víst alltaf á sunnudagskvöldið..... Þannig að ég er bara að hlusta á hann núna, bara stuð. Mér finnst ekki alveg nógu gott að hafa aldrei upplifað þjóðhátíð í Vestmannaeyjum og spurning hvort ég þurfi ekki að skora á hana Ragnheiði mína ofurkonu ...... Maður á alltaf að vera leggja inn í reynslubankann og er ekki svona geim eitthvað sem maður þarf að leggja inn ?

 

Var búinn eitthvað extra snemma í kvöld þannig að ég skellti mér í smá göngu, með flugnanet á hausnum og hendur í vösum til að forðast flugarnar. Sá ýmislegt skemmtilegt, var svo tekinn upp í bíl og fór smá rúnt um svæðið, en þeir náungar voru að fara prufa nýtt veiðarfæri, en hér eru ár sem menn hafa verið að veiða í. En þetta var stór háfur með löngu priki. Veiddum við einar 3 bleikur á 3 mínutum, þannig að við snar hættum þegar við sáum fram á fylla bílinn ef þetta héldi svona áfram.

 

Já Ragga mín, ég skal taka ofur skver í Bjarmalandi þegar ég kem heim, enda grunar mig að þú sért orðin hálf orkulaus eftir erfiðan Júlí mánuð. Ég er alveg súpar stoltur af því að eiga þig sem eiginkonu, svona ofurkonu sem vílar ekki neitt fyrir sér. Elska þig, þrái og dái

 

Kveðja úr þjóðhátíðarstemmingunni í Campnum í 2.firði, herb 24


skúra-skrúbba-bóna

Eins og ég hef áður komið að hefur danski forveri minn hér, ekki eitt umfram orkunni sinni í þrif eða þessháttar. Enda var það bara í gær sem mér tókst að fá hingað inneftir svona fituleysir í spreyformi. Þannig að í dag var þrifadagurinn mikli..... Var spreyjað út um allt eldhús, veggir, loft, háfur, skápar og allt annað sem fyrir mér varð fékk að finna fyrir sápu, tusku, skrúbbi, svampi og jafnvel negrahári. ( en fyrir þá sem ekki vita þá er það svokallað pottastál). (þetta hefur ekkert með rasista eða neina neikvæða hugsun að gera, bara hafa það á hreinu)

Þeirri grænlensku leist ekkert á þetta, og svo þegar moppan var nú kominn uppí loft þá dæsti hún bara og blés. Svona hafði hún aldrei séð áður. Alla starfsmenn í eldhúsinu uppá bekkjum, uppí stigum eða goskössum með tuskur að vopni. Þetta var lööööngu tímabært.  Mikið líður manni betur á svona vinnustað þegar maður búinn að taka svona skver.

 

Í kvöld var verið að tala um að skella einhverjum á veiðar hér til fjalla, horfa eftir hreidýrum, Moskusum (sauðnaut) eða gæsum, og láta nýja kokkinn elda það. Ég vill nú helst taka þátt í því að ná þessum dýrum í hús og elda þau svo, en það kemur bara í ljós hvernig það fer. Í desember í fyrra var haldið til veiða og komið með hreindýr fyrir kokksa og hann látinn elda fyrir mennina. Fara nú misjafnar sögur af því hvernig tókst til, en einhverjir töluðu nú um að hann hefði alveg gleymt að flá dýrið því menn voru talsvert loðnir í gómum eftir fyrsta bita, líktu þessu við að reykja Camel filterslausan. Greinilega mikill fagmaður, eða grænlenskur villimaður þar á ferð.....

 

Alltaf gott að geta sagt sögur úr eldhúsinu.....


Það er draumurinn

Ég er nú alveg hættur að skilja þessa veðráttu hér á Grænlandi. Þetta er eins og í “heitu löndunum” en ekki landi sem geymir einn stærsta jökul í heimi.  Í dag var vel yfir 20 °c og logn enda eru kalla greyin sem eru að vinna út alveg svartir, þá bæði af ryki því það hefur ekki komið dropi síðan einhvertímann fyri löngu, og svo eru þeir vel grillaðir af sólinni. En við þurfum nú ekki að kvarta yfir því í eldhúsinu, hættum okkur ekki út fyrir dyr.!!

 

Talandi um grill, þá er ég búinn að láta smíða fyrir mig grill. Skal það vígt með hátíðlegri athöfn á laugardagskvöldið næsta. Ég er nú ekki alveg búinn að ákveð hvað ég ætla að grilla, en það eitthvað til sem hægt er að skella á grillið,  og svo verður hlustað á brekkusöng hjá Árna Johnssen enda þjóðhátíð.

 

Nei hann kemur ekki hér með þyrlu heldur bara beinútsending á rás 2.

 

Talaði aðeins við litlu strumpana mína í dag, Ísar og Kára. Þeir voru bara kátir að vanda, játuðu á sig einhverja smá óþægð en lofuðu betrumbót. Ísar Svan var nú nokkuð súr yfir því að pabbi hans kæmist ekki á fótboltamótið á Sauðarkróki með honum í ágúst, og ég er bara sammála honum með það, en það þíðir ekkert að sýrast neitt yfir því, það er ekki hægt að vera allstaðar í einu, búinn að reyna það og það gengur ekki, trúið því. En ég kem líklega heim eitthversstaðar í kringum 20.ágúst og þá í frí í 2 vikur. Fer svo væntanlega aftur hingað, nú eða eitthvað annað, hver veit.

 

Veit nú ekki alveg hvað mig dreymdi í nótt eða hvað gekk á í herberginu því þegar ég vaknaði var ég löngu búinn að slökkva á vekjaraklukkunni, sem er gsm síminn hann hefur engann annann tilgang þessa dagana, ekkert samband. Já búinn að slökkva á símannum og lakið út á miðju gólfi !!! Sæng, koddi og ég í rúminu en lakið á gólfinu !!! Ég var nú nokkra stund að reyna að átta mig á þessu en hef ekki komist að neinni niðurstöðu enn og geri líklega ekki.


Víkingar

Ég var ekki að nenna að ruglast fram úr rúminu í morgun, kl 0640, enda fanst mér ég vera ný sofnaður, sem reyndar er rétt því ég var vakandi alla vega til 0130. Það er svona þegar maður fer að láta huga flakka um það leyti sem maður reynir að loka augunum. Ég var að hugsa um, Grænland og þessa þjóð sem það byggir og hvað ég, og ég held fleiri, viti afskaplega lítið um þessa granna okkar hér í vestri. Ég hef ekki pælt í því t.d. hvað þetta er afskaplega stórt land, eyja. Hvað hún er strjábýl og harðskeytt en samt eitthvað svo “byggileg”, alla vega að sumri til. Ég var líka að hugsa hvað gömlu útrásavíkingarnir okkar, Leifur Eiríks og félagar, voru að hugsa þegar þeir sigldu hér upp með ströndinni. Þeir hljóta að hafa siglt hér að vor eða sumarlagi og upplifað landið eins og ég upplifi það í dag. Fjörðurinn sem við erum í 2. fjörður er fullur af fiski, fjallshlíðar grænar niður í fjöru,  allar ár hér fullar af fiski sauðnaut hér uppá heiðum ásamt hreyndýrum og gæsum og öðrum viltum dýrum. Ef veðrið hefur verið þá eins og það er búið að vera þessa daga  þá hlýtur landið að hafa heillað þá. En auðvitað eru andstæðurnar miklar því hér er sumarið stutt en hlýtt, og veturinn langur og kaldur.

 

Þegar ég leit út um gluggan í nótt ca 0130 þá var mikil byrta og sólin skein hér á fjöllin á móti, í suðri enda 2. fjörður langt fyrir norðan heimsskautsbaug.

 

Ég veit ekki hvort það var út einhverjum svefngalsa eða einhverjum öðrum galsa, en það var mikið bullað og ruglað í eldhúsinu í kvöld og það endaði með gríðarlegu hláturskasti starfsmanna, þar á meðal mín og ég hló alveg þangað til mig verkjaði í magan. Rosalega er langt síðan að ég hló svona út af engu, hló bara til að hlæja, og mikið rosalega var það gott, ég var búinn að gleyma því hvað það var gott, eftirá.

Sem betur fer var ekki margt annað fólk í matsalnum, bara einn vesalíngs grænlendingur sem var að mæta í fyrsta sinn, við vorum ekki að hlægja af honum, vona að hann hafi fattað það og ekkert mógast.

 

Mér til skelfingar þá áttaði ég mig á því í gærkvöldi að ég var að klára síðari bókina sem ég kom með, og ekki nema ca 4 vikur eftir af þesu holli. Leitaði því hér í dag í öllum geymslum, athuga hvort einhver hafði ekki skilið eftir einhverjar bækur og fann eina.

 

Orðinn nokkuð kaldur að snakka við þá grænlesku, þá á dönsku, þetta er allt að koma, einn daginn


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Gauti Árnason

Höfundur

Gauti Árnason
Gauti Árnason

Nokkuð staðfastur ungur maður með ákveðnar hugmyndir um lífið, 4 barna faðir sem lifir góðu lífi á Hornafirði

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Svæði hér í Patiksoq
  • IMG 3119
  • IMG 3117
  • Vegagerð
  • Rödeby

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.5.): 18
  • Sl. sólarhring: 18
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 284

Annað

  • Innlit í dag: 18
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 18
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband